Orðskýringar


Við höfum tekið eftir að orð sem tengd eru geitum eru ekki öllum Íslendingum töm í munni sem er eðlilegt í ljósi þess hve geitur eru sjaldgæfar hér á landi. Við höfum því tekið saman stuttan lista orða sem tengjast geitum.

 • Hafur: Karlkyns geit.
 • Huðna: Kvenkyns geit.
 • Kiðlingur: Afkvæmi geita.
 • Snoppa: Nef.
 • Dindill: Stutt rófa.
 • Klauf: Tvískipt tá.
 • Hyrnt: Að hafa horn.
 • Kollótt: Að hafa engin horn.
 • Hnýflótt: Hornin eru einungis litlir nabbar.
 • Jórturdýr: Klaufdýr sem jórtra fæðuna, þ.e. tyggja hana tvisvar.
 • Klaufdýr: Hafa tvískipta tá.
 • Fengitími: Tíminn sem kiðlingarnir geta verið búnir til. (Egglostímabil)
 • Meðgöngutími: Tíminn sem meðgangan tekur. (Hversu lengi kiðlingurinn er í móðurlífinu.)
 • Burður: Fæðing kiðlinga.
 • Sæðing: Þegar sæði hefur verið tekið úr hafrinum og er sprautað inn í huðnuna til að getnaður eigi sér stað.
 • Mjaltaskeið: Tíminn sem geitin er mjólkandi. Hámjaltaskeið er þegar geitin mjólkar best og mest.
 • Hey: Þurrkað gras.
 • Kjarnfóður: Bætiefni fyrir geitur.
 • Spörð: Kúkur geitanna.
 • Slátrun: Þegar skepnan er drepin til manneldis, þ.e. kjötið hirt.
 • Mör: Innri fitan.
 • Bógur: “Upphandleggurinn”, efri hluti framfótar, saman ber læri á afturfæti.
 • Fallþungi: Þungi skrokks eftir slátrun, þ.e. þegar búið er að aflima og taka skinnið utanaf og innyflin úr.

Um kollóttar geitur


 

Hyrnt og kollótt eru orð sem notuð eru um hvort dýr hafi horn eða ekki. Þegar dýr eru kollótt hafa þau engin horn en ef þau eru hnýflótt eru litlir hornstubbar ofan á höfði þeirra.

Geitur geta verið hyrndar, hnýflóttar og kollóttar. Íslensku geiturnar eru sjaldnast hrein kollóttar og því oft hægt að sjá smá hnýfla á þeim.

Um árið 1960 hafði geitum fækkað mjög á landinu og ekki var vitað um nema eina kollótta geit. Þessi geit var í Þormóðsdal og út frá henni voru ræktaður svokallaður Þerneyjarstofn. Þessi geit er formóðir allra núlifandi kolllóttu geitanna á landinu. Þerneyjarstofninn var gefinn í Húsdýragarðinn í Reykjavík og þaðan fóru þær að Sólheimum í Grímsnesi.  Árið 1999 voru svo sendar að Háafelli fjórar geitur frá Sólheimum en hinum var fargað. Þá áttu kollóttu geiturnar aftur undir högg að sækja því einungis þessar fjórar báru kollótta genið.

Kollótta genið er ríkjandi en mikilvægt er að blanda kolllóttum og hyrndum geitum saman til að fá heilbrigðan og frjósaman stofn. Þannig eru hreinkollóttir hafrar nánast alltaf ófrjóir. Kollótta genið ber einnig með sér genið fyrir gulbrúnum lit. Þannig er hægt að gera ráð fyrir að gular/brúnar geitur beri kollótta genið og öfugt.

Geiturnar sem komu frá Sólheimum 1999 voru eins og fyrr segir fjórar. Einn hafur, Heimir, sem var hyrndur og gul golsóttur.

 Huðnurnar voru þrjár og allar kollóttar. Tvær þeirra voru tveggja vetra, önnur gráhöttótt, Grána, og  hin Svarthöttótt, Dagnótt. Þriðja huðnan var veturgömul og með gular golsur, hún fékk nafnið Sóla. Út frá þessum fjórum geitum hafa bændur á Háafelli svo ræktað markvisst kollóttar og gular geitur til að vernda þetta gen. Í dag er svo komið að hátt í þriðjungur stofnsins á Háafelli er kollóttur og þriðjungur með gulann lit. Því má búast við að yfir helmingur geitastofnisins á Háafelli beri þetta gen.Gerðar hafa verið markvissar tilraunir með sæðingar frá höfrum sem bera kollótta genið. Einhverjar kollóttar og gular geitur er því að finna annarsstaðar á landinu en á Háafelli en þá yfirleitt ekki nema ein til tvær á hverjum stað á örfáum stöðum á landinu.

 

 

Á myndinni má sjá kollótta gulbrúna huðnu.

Geitafiða


Hér  má sjá upplýsingar um geitafiðuna frá Önnu Maríu Lind Geirsdóttur sem unnið hefur að rannsóknum á geitafiðunni.

Heimasíðu Önnu Maríu má svo sjá hér en þar fjallar hún um geitafiðuverkefnið.

 

 

Kýr fátæka mannsins


maedginGeitur hafa verið nefndar „kýr fátæka mannsins“ bæði á Íslandi og víðar. Fyrr á tímum voru geitur ódýrar í innkaupum og þurftu lítið pláss og lítið fóður. Tvær geitur áttu að geta framleitt næga mjólk fyrir meðalstóra fjölskyldu allt árið ef önnur var látin bera að vori og hin að hausti. En geitur voru að mörgu leyti ekki eins auðveldar og kindur í búrekstri. Þær þurftu gott húsaskjól allt árið og fjölbreytta útibeit. Geitur eru þrjóskar, liprar og útsjónarsamar og leita sífellt þangað sem besta fóðrið er. Þetta reyndist einnig mönnum erfitt viðureignar því þær þurftu góðar girðingar og gæslu ef takast átti að halda þeim þar sem menn vildu hafa þær. Á 19. öld var víða í Evrópu farið að líta á geitur sem skaðvalda frekar en húsdýr og í Noregi voru sett lög árið 1860 þar sem leyft var að drepa geit sem næðist í matjurtagarði sem væri þó vel varinn með girðingu. Á fyrri hluta 20. aldar fjölgaði geitum í kauptúnum á Íslandi því þær hentuðu vel í þéttbýli og voru ódýrari en kýr í innkaupum. Þær voru því ákjósanlegir mjólkurgjafar áður en mjólkursamlögin fóru að dreifa kúamjólk í þéttbýlið. En geiturnar leituðu í matjurtagarða og ræktuð tún og gátu á stuttum tíma eyðilagt uppskeru sumarsins. Það var því að lokum bannað að hafa þær í þorpunum og eftir seinni heimsstyrjöldina hafa geitur ekki verið haldnar á Íslandi til matar. Þær hafa aftur á móti haldið velli sem gæludýr vegna þess hve skemmtilegar þær geta verið í samskiptum við menn.

Heimildir: Bergljot Børresen og Vera Gersjøe: Husdyrliv (1999); Dagfinn Drabløs: Utviklinga av geitehaldet (2002); Jón Torfason: Melrakki (2002); Jóhanna B. Þorvaldsdóttir (viðtal 2010).

Síða 1 af 3123
 
Loka

Heimsókn

Megum við koma í heimsókn?

Hvað er 7+6= 
Loka

Fóstur

Mig langar að taka geit í fóstur

 hvaða geit sem er
Hvað er 2+7= 
Loka

Versla

Mig langar að kaupa vörur

Hvað er 5+6= 

*Mundu að tiltaka nafn vörunnar, stærð (ef um margar stærðir er að ræða) og fjölda.

Loka

Styrkja

Hafirðu áhuga og tök á að láta smáræði af hendi rakna til búsins eða geitfjárseturs, þá eru þetta bankaupplýsingarnar. Hafðu kæra þökk fyrir! Margt smátt gerir eitt stórt. >> Geitfjársetur: Reikningsnúmer: 701-05-302959 Kennitala:520811-0950 >> Háafell: Reikingsnúmer: 0354-03-7612 Kennitala: 240561-5309 >>