Árið 2009 var byrjað að gera tilraun með að bjóða fólki að taka geitur í fóstur. Aðferðin er einföld, þú heimsækir geitabúið eða hefur samband við Jóhönnu og velur þér geit. Þú borgar svo kr. 8.000  á ári sem gengur upp í fóðurkostnað og aðra umönnun geitarinnar. Þú eignast ekki geitina og getur ekki nýtt afurðir hennar en færð tvær fríar heimsóknir á Háafell á ári með fjölskylduna (miðað er við foreldra með börn sín) auk þess að fá skjal og fréttir af geitinni „þinni“. Hugmyndin er fengin frá SOS barnaþorpunum sem margir kannast við og er þetta fyrst og fremst stuðningur við geitaræktina á Íslandi. Þetta hefur gefist vel og eru nú fjölmargar geitur fóstraðar af velunnurum.  Fréttir af geitinni og myndir færðu í gegnum facebook, eða tölvupóst. Hér fyrir neðan má sjá þær geitur sem til eru á Háafelli, nöfn þeirra, foreldra og fæðingardaga auk mynda. Þessar geitur er allar hægt að fóstra, eða eru nú þegar í fóstri.   8.000 kr eru ekki nema u.þ.b. einn þriðji af heildarfóðurkostnaði fyrir eina geit yfir árið, svo fleiri enn einn aðili geta fóstrað hverja geit.   Fóstur á geit stuðlar að möguleikum geitabúsins á Háafelli til að stækka geitastofninn og finna honum stað í íslenskum landbúnaði með tilraunum á nýtingu afurðanna. Auk þess eykur það möguleika þeirra sem taka að sér slíkt fóstur að koma í sveitina og hitta geiturnar og fylgjast með því sem gerist á búinu. Þannig má tengjast sveitinni og dýrunum á nýjan hátt og hafa margir nýtt sér þetta frá því að opnað var fyrir þennan möguleika. Til þess að taka geit í fóstur hefuru samband við okkur á Háafelli á netfangið haafell@gmail.com eða í síma 845-2330, Jóhanna. Það er gaman að sjá hvernig fóstrunum okkar líkar. Sjá sem dæmi pistilinn frá Þóri Jens Gunnarssyni. Fóstrar mega gjarnan senda okkur umsagnir um hvernig þeim líkar að fóstra geit. Við viljum benda á að á sumrin ganga flestar geiturnar frjálsar um fjallið, því er ekki hægt að koma hvenær sem er til að heimsækja "sína" geit, en allar geiturnar eru inni yfir háveturinn og þá er pottþétt að þú getur séð geitina "þína". Fóstar eru þó velkomnir í heimsókn að Háafelli hvenær sem þeir vilja, utan auglýsts opnunartíma biðjum við ykkur um að hafa samband á undan og athuga hvort ekki sé örugglega hægt að taka á móti ykkur.